11.3.2009 | 12:51
Félagsstarf SÁÁ
Það hefur aldrei verið eins mikil þörf fyrir félagstarf SÁÁ eins og í dag. Ekki aðeins vegna ástandsins í þjóðfélaginu heldur einnig vegna niðurskurðar á útgjöldum ríkis og sveitafélaga.
Það er nauðsynlegt að félagsstarf SÁÁ leggist ekki af. Þrátt fyrir samdrátt og kreppu þá er félagsstarf SÁÁ lífsnauðsynlegur þáttur fyrir fjölda fólks. Félagsstarfið er í raun eftirmeðferð og viðhald þess nýja lífs sem menn öðlast eftir afeitrun á Vogi og meðferðarinnar. Félagsstarfið er mikilvægur þáttur i því að sameina fjölskyldur sem hafa sundrast vegna neyslu og félagslegs hruns manna og kvenna. Á heimasíðu SÁÁ er sagt um félagsstarfið
Félagsstarf SÁÁ snýst einnig um að skapa heilbrigða umgjörð utan um afþreyingu og skemmtanir. Margar skemmtanir sem fólk sækir eru tengdar neyslu og oft eru þar einstaklingar bæði undir áhrifum af áfengi og vímuefnum. Þar kemur einnig til lífsmynstur og félagslegur þrýstingur á að taka þátt í neyslunni. Þeir sem hafa lent í vanda vegna áfengis- og vímuefnaneyslu eru oft félagslega einangraðir vegna þess að bata þeirra er hætta búin með slíku skemmtanahaldi og oft eru þessar skemmtanir þær einu sem í boði eru. Algeng ástæða fyrir falli er skortur á afþreyingu og leiði sem kallar á áhættuhegðun s.s. að fara á skemmtanir með vímuðu fólki. Eins kunna margir þessara einstaklinga ekki að skemmta sér án áfengis og hafa skerta félagslega hæfni.
Hið margháttaða félagsstarf sem unnið er innan SÁÁ miðar að því að til staðar sé raunverulegur valkostur um skemmtanir fyrir þá sem vilja skemmta sér án áfengis og vímuefna. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir nýliða (þá sem nýlega hafa lokið meðferð).
Félagsstarf SÁÁ hefur verið mjög öflugt. Efnt hefur verið til dansleikja, félagsvistar, bridge, fluguhnýtinga auk tóleika og marháttaðra viðburða. Einnig má telja árshátíð, útihátíðhátíð, þorrablót og jólaskemmtun.
Í dag njóta nokkur hundruð manns, góðs af félagsstarfi SÁÁ og glæsilegt félagsheimili SÁÁ Von í Efstaleiti er orðin miðstöð samhjálpar og hagnaðarlausar starfsemi. Hagnaðurinn af starfseminni í mannauði er samt mikill fyrir samfélagið.
Síðan ég kom úr meðferð 2007 hefur þetta félagsstarf haft gífurlega þýðingu fyrir mig til þess að fóta mig á svelli edrúmennskunnar. Í skora því á félagsmenn í SÁÁ að standa vörð um félagstarfið og meta það að verðleikum. Félagsstarf SÁÁ hefur bjargað mannslífum og mun gera það áfram ef allir eru tilbúnir að leggjast á eitt við að varðveita þetta góða starf
Torfi Geirmundsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.