Varðskipið Óðinn

 Gestur þáttarins Fegurð og heilsa í dag kl. 15 á Útvarpi Sögu FM 99,4 verður Helgi M Sigurðsson sagnfræðingur en hann hefur ritað sögu Varðskipsins Óðins. Þá verður ljóðahorn Valdimars Tómarssonar á sínum stað. Hægt er að hlusta á www.utvarpsaga.is.

Saga Varð- og Björgunarskipsins Óðins var samtvinnuð örlagaþáttum í sögu íslenskar þjóðar. Óðinn kom til landsins í ársbyrjun 1960 og þjónaði landsmönnum í hartnær hálfa öld við góðan orðstír. Skipið tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum á liðinni öld, klippti þá á togvíra þrjátíu erlendra togara og lenti tíu sinnum í árekstrum við breskar freigátur, dráttarbáta og togara. Skipið reyndist sérlega vel sem björgunarskip og dró nærri 200 skip og báta til lands eða í landvar vegna bilana, veiðarfæra í skrúfu eða eldsvoða um borð. Einnig dró hann flutninga- og fiskiskip 14 sinnum úr strandi. Þá bjargaði skipið áhöfnum strandaðra skipa þrisvar sinnum og tvisvar bjargaði það áhöfnum sökkvandi skipa. Óðinn sinnti almennu veiðieftirliti alla tíð og beindist það bæði að íslenskum skipum og erlendum skipum. Einnig var Óðinn oft kallaður til þegar ófærð var í landi og erfiðleikar við fólks- og vöruflutninga, ekki síst í afskekktustu byggðum landsins og þegar slys og veikindi bar að höndum.

Í bókinni, sem byggð er upp af greinum og viðtölum, er farið yfir sögu skipsins og fjölbreytt hlutverk þess tíundað. Fyrir rúmum tveimur árum lagðist Óðinn að bryggju við Víkina - Sjóminjasafnið í Reykjavík eftir að ákveðið var að varðveita skipið og nýta það til að fræða almenning, skólabörn og erlenda gesti um sögu Landhelgisgæslunnar og þorskastríðanna.

Einnig gefur safnið út 25 mín. kvikmynd um sögu Óðins sem byggð er á bókinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband